Vistvæn hönnun

ARKÍS býður upp á alhliða ráðgjöf varðandi vistvæna hönnun bygginga, skipulag og stefnumörkun um visthæfi byggðar. Starfsmenn ARKÍS hafa sótt sér menntun í umhverfisvottun bygginga og skipulags, auk þess sem ARKÍS hefur á síðustu árum verið leiðandi í þróun vistvænna bygginga og skipulags á Íslandi.

Með vistvænum lausnum og umhverfisvænni hugsun mætum við kröfum samtímans um leið og við vinnum á ábyrgan hátt að hag komandi kynslóða. Vistvæn hönnun og skipulag hámarka notagildi og bæta frammistöðu byggðar með tilliti til náttúruauðlinda, svo sem lands, orku, vatns og byggingarefna, samhliða því sem dregið er úr neikvæðum áhrifum byggðar á umhverfi og heilsu fólks.

Ábyrg vistvæn hönnun getur tryggt lægri rekstrarkostnað og aukið verðmæti bygginga með bættri ímynd og auknum gæðum. Auk þess sýna rannsóknir að með markvissum aðgerðum við hönnun og skipulag má stuðla að bættri heilsu og vellíðan, draga úr fjölda veikindadaga, auka framleiðni starfsfólks og hækka einkunnir nemenda í skólum.* Ennfremur draga vistvænar lausnir í hönnunarferlinu úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði af framkvæmdum og daglegum rekstri bygginga og hverfa.
Umhverfisvottun bygginga og skipulagsáætlana með alþjóðlega viðurkenndum vottunarkerfum gefur marktækan og mælanlegan samanburð á visthæfi byggðar. Ennfremur, er vottunarferlið áhrifaríkt stjórntæki fyrir verkkaupa til að setja sér gæðamarkmið og fylgja þeim markmiðum eftir allt þar til byggingin er fullbúin.

ARKÍS býður upp á ráðgjöf og vottun samkvæmt BREEAM umhverfisvottunarkerfinu og Miljöbyggnad. BREEAM kerfið er breskt að uppruna, útbreitt alþjóðlega, en notkun kerfisins er mikil á Bretlandseyjum. Til dæmis má nefna að allar nýbyggingar sem byggðar eru á Englandi fyrir opinbert fé, að hluta eða að fullu, skulu BREEAM vottaðar og þurfa að ná skilgreindum lágmarkseinkunnum. Árið 2009 höfðu yfir 116 þúsund byggingar hlotið BREEAM vottun.  Miljöbyggnad er sænskt umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar.

Eins og áður segir býður ARKÍS upp á BREEAM vottun og ráðgjöf vegna slíkra vottana. Jafnframt býður ARKÍS upp á vottun skipulagsáætlana samkvæmt BREEAM Communities og almenna ráðgjöf í umhverfisvænni hönnun og skipulagi, óháð vottun, en ýmis tækifæri eru til að auka visthæfi byggðar jafnvel þó ekki sé lagt í vottun.

Meðal verka ARKÍS þar sem vistvæn hönnun og skipulag eru í forgrunni má nefna skipulag Urriðaholts í Garðabæ sem hlotið hefur fjölda alþjóðlegra viðurkenninga, Snæfellsstofu að Skriðuklaustri sem stefnir í að verða fyrsta BREEAM vottaða byggingin á Íslandi, nýbyggingu Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er í BREEAM vottunarferli og þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi sem hefur verið fullhönnuð út frá BREEAM viðmiðum.

Auk þess hefur ARKÍS ritstýrt stefnumörkun Reykjavíkurborgar fyrir vistvæn hverfi og byggingar, jafnframt því sem starfsmenn ARKÍS hafa sinnt sérfræðiráðgjöf varðandi umhverfisvæna byggð með nefndarstörfum fyrir Umhverfisráðuneytið og stundakennslu bæði við Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.

ARKÍS arkitektar er margverðlaunuð, framsækin arkitektastofa sem starfað hefur frá árinu 1997. Verk ARKÍS spanna öll svið arkitektúrs, skipulags, hönnunar og ráðgjafar.
ARKÍS hefur viðamikla reynslu af verkefnum í skipulagi og arkitektúr, en frá stofnun hefur ARKÍS komið að úrlausn fjölmargra viðamikilla og flókinna verkefna, bæði hérlendis sem og erlendis.

ARKÍS arkitektar hafa þá sérstöðu að geta boðið upp á heildstæða ráðgjöf fyrir vistvæna byggð og byggingar á öllum stigum hönnunar; það er undirbúnings, skipulags, hönnunar og framkvæmdaeftrilits auk þess sem stefna fyrirtækisins er að samtvinna umhverfisvitund auknum gæðum byggðar.


* Benefits of Green Building. BRE Global